Staðan í kjaraviðræðum
Annríki hjá samninganefndum VFÍ.
Samninganefndir VFÍ standa í ströngu þessa dagana. Flestir kjarasamningar sem Verkfræðingafélag Íslands kemur að runnu út 31. mars síðastliðinn og hafa því samninganefndir félagsins beðið með óþreyju eftir að ná fundum við viðsemjendur sína.
Samninganefnd VFÍ annars vegar og ST hins vegar hafa átt tvo fundi með samninganefnd Reykjavíkurborgar. Boðaður hefur verið þriðji fundurinn með VFÍ í þessari viku, um miðjan maí. Aðilar eru sammála um að gera þurfi leiðréttingar á launatöflum og unnið milli funda að finna ásættanlegar leiðir til þess.
Samninganefndir VFÍ við FRV hafa einnig fundað tvisvar og þriðji fundur aðila er á dagskrá í þessari viku. En eins og flestum er kunnugt um hefur FRV framselt um samningsumboð sitt til Samtaka atvinnulífsins, SA.
Fyrsti samningafundur VFÍ við Orkuveituna/SA var haldinn í síðustu viku (fyrstu viku maímánaðar). Samninganefnd VFÍ mætti vel undirbúin til fundarins, vopnuð könnun sem gerð hafði verið meðal félagsmanna sem starfa hjá Orkuveitunni um áherslur og væntingar í komandi viðræðum. Standa vonir til að samningsleysið frá 1. nóvember 2022 verði bætt og öfug launaþróun leiðrétt.
Ríkið hefur loksins svarað kallinu um samningafund og verður á dagskrá í næstu viku (eftir miðjan maí).
Sveitarfélögin (SNS) hafa enn ekki svarað kallinu um samningaviðræður og segja að stærri hópar gangi fyrir.
Það er sammerkt með öllum þessum viðræðum að viðsemjandinn víkur ekki frá þeirri launastefnu sem nú þegar hefur verið gefin út á markaði, þ. e. fjögurra ára samningur með 3,25% hækkun fyrsta árið og 3,5% næstu þrjú árin. Skiptir þá engu sú staðreynd að kaupmáttur verkfræðinga og tæknifræðinga, og annarra háskólahópa, hefur ekki aukist frá aldamótum á meðan kaupmáttur ófaglærðra hefur hlutfallslega aukist um 29% frá aldamótum (skv. skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um kjör verkfræðinga og tæknifræðinga 2000-2022).
Hver hópur fær svo að ráðstafa brauðmolum í eigin málefni sem efst eru á baugi hjá hverjum hópi, hvort sem það er hraðari orlofsávinnsla, breytt bakvaktarákvæði, inngjöf í fæðingarorlofsmál o.s.frv.
Samninganefndir VFÍ/ST hafa brett upp ermar og ganga keikar til leiks.