Staðan í kjaraviðræðum
Þungur róður hjá samninganefndum.
Samningaviðræður eru komnar á fullt í öllum samninganefndum VFÍ og ST eftir sumarfrí.
Kjaradeild VFÍ á gott samstarf við önnur háskólafélög og fylgist grannt með gangi mála. Það er sammerkt öllum þessum hópum að viðsemjendur kvarta undan tregðu háskólamanna til að gangast inn á það tilboð sem liggur á borðinu en það er það sama og samið var um á almenna markaðnum síðasta vetur. Eins og áður hefur komið fram þýðir það kjararýrnum fyrir háskólafólk. Opinberir viðsemjendur eru leynt eða ljóst farnir að sýna tennurnar og farnir að draga fram spilið sem vísar á ríkissáttasemjara.
Sjöundi fundur samninganefndar VFÍ við Félag ráðgjafaverkfræðinga (FRV) fór fram í síðustu viku og segja má að í fyrsta sinn frá upphafi þessarar samningalotu hafi viðsemjandinn sýnt örlitla viðleitni til að koma til móts við kröfur samninganefndar VFÍ þó í mýflugumynd sé. Samtalinu er þar með haldið opnu og ber að fagna því. Stefnt er að því að halda félagsfund í næstu viku þar sem staðan verður kynnt fyrir verkfræðingum og tæknifræðingum á verkfræðistofunum og sagt almennt frá því sem er að gerast í kjarasamningsumhverfinu og stöðunni við samningaborðin.
Tveir samningafundir hafa verið haldnir við Samband íslenskra sveitarfélaga og boðað hefur verið til þriðja fundarins.
Einnig hafa tveir samningafundir átt sér stað við RARIK en sá samningur er gerður í samvinnu við fleiri háskólafélög (Félag íslenskra náttúrufræðinga og Kjaradeild viðskipta- og hagfræðinga). Þessar samningaviðræður eru óvenjulegar að því leitinu til að það á eftir að gera upp gamlar syndir en háskólamenntaðir starfsmenn RARIK hafa verið samningslausir frá 1. nóvember 2022.
Félagsmenn VFÍ, sem starfa hjá Orkuveitunni, gengu til kosninga í síðustu viku eftir að samninganefndir höfðu skrifað undir nýjan kjarasamning milli aðila. Samningurinn var samþykktur með meirihluta greiddra atkvæða.
Félag háskólamenntaðra starfsmanna stjórnarráðsins (FHSS) og Stéttarfélag lögfræðinga (SL) hefur boðið samninganefndum VFÍ og ST til samráðsfundar. Það boð hefur verið þegið og verður fróðlegt að sjá hvernig því vindur fram.
Upplýsingar vegna FRV
Í júní var tölvupóstur sendur til félagsmanna sem heyra undir FRV samninginn með upplýsingum um stöðu mála í viðræðunum. Þar kom meðal annars fram að samninganefnd FRV/SA ákvað að beina þeim tilmælum til aðildarfyrirtækja FRV að hrinda í framkvæmd þeim almennu launabreytingum sem samið hefur verið um á vinnumarkaði, þ.e. 3,25% og að lágmarki kr. 23.750 frá og með 1. apríl 2024.
Stjórn Kjaradeildar VFÍ fylgist vel með gangi mála og fer yfir stöðuna á aukafundum þegar þörf þykir.
Fréttin var fyrst birt 7. júní 2024 og er uppfærð reglulega.
Hér fyrir neðan er ítarefni vegna kjaraviðræðna.
Samningaviðræður ekki réttnefni
Samninganefndir félagsins hafa hist og borið saman bækur sínar. Mikil óánægja er með gang mála við samningaborðið og samninganefndir sammála um að samningaviðræður séu ekki réttnefni. Samninganefndum er afhentur fjögurra ára samningur sambærilegur þeim sem Efling og VR gerðu fyrr á árinu og minnst var á hér að ofan. Innihald slíks samnings þýðir að enn minnkar bilið á milli ófaglærðra og háskólamenntaðra. Verkfræðingafélagið hafði enga aðkomu að þeim kjarasamningum heldur fóru þær samningaviðræður fram á milli Samtaka atvinnulífsins annars vegar og stéttarfélaga innan vébanda Alþýðusambands Íslands á almennum vinnumarkaði hins vegar. Heildarkostnaðarmat þeirra samninga hefur verið áætlað í kringum 17,2% á þessum fjórum árum og þar af hefur hvert félag haft um 0,7% til ráðstöfunar í sérkröfur sem eingöngu á við það umhverfi sem þeir starfa í. Sem dæmi hefur verið nefnt að þessi 0,7% gætu nýst í meiri orlofsávinnslu, hærra framlag í sjóði, leiðréttingu á launatöflum og öðru sem félagsmenn viðkomandi félags hafa óskað eftir. Þetta breytir engu um stóru myndina um hversu háskólamenntaðir hafa dregist aftur úr.
Rýnt í tölurnar
Í umræðum við samningaborðið hefur verið bent á að nokkur stéttarfélög hafa samið um launahækkanir sem eru 3,25% árið 2024 og 3,5% á ári árin 2025-2027, þó lágmarkshækkun grunnlauna 23.750 kr. Þessi lágmarkshækkun grunnlauna þýðir að öll grunnlaun undir 730.770 kr. hækka meira hlutfallslega en 3,25% á fyrsta ári og grunnlaun undir 678.572 kr næstu ár á eftir. Þetta er í kjölfar samninga þar sem samið hefur verið að miklu leiti um krónutöluhækkanir síðustu ár.
Meðal grunnlaun árið 2023 eru 660 þús. kr., en ef einungis er horft til fullvinnandi einstaklinga eru meðal grunnlaunin 742 þús. kr. Af þessu er því ljóst að fyrir allar stéttir sem hingað til hafa grætt á krónutöluhækkunum munu áfram fá mjög háar launahækkanir þegar horft er til hlutfalls launa. Þær stéttir sem staðið hafa í stað, t.a.m. háskólastéttirnar, standa hins vegar áfram í stað með lágmarkshækkun á grunnlaunum.
Hlekkur á síðu Hagstofunnar sem sýnir meðalgrunnlaun eftir mismunandi starfsstéttum.
Rétt er að minna á að Verkfræðingafélag Íslands var aðili að yfirlýsingu 22 stéttarfélaga háskólamenntaðra í marsmánuði sl. Þar var minnt á hvernig ítrekaðar krónutöluhækkanir í síðustu kjarasamningum hafa leikið þennan hóp og var úrbóta krafist.
Niðurstaðan; áframhaldandi kjararýrnun og öfug launaþróun fyrir háskólamenntaða.
Samingsumboðið til SA
Flest hálfopinber fyrirtæki hafa framselt samningsumboð sitt til Samtaka atvinnulífsins og það hefur Félag ráðgjafarverkfræðinga einnig gert. Á þeim vettvangi hefur stefnan verið sú að launaliður er ekki ræddur heldur er starfsmönnum gert að sækja sér launahækkanir í launaviðtölum. Reynsla félagsmanna af launaviðtölum er misjöfn. Í sumum tilfellum er vísað til þess að ekki sé svigrúm til hækkana eða að atvinnurekendur skýla sér á bak við jafnlaunavottun. Réttur til hækkana er einnig of óljós í slíkum samningum. Í kjarasamningi VFÍ við SA, sem er viðmiðunarsamningur á almennum markaði, er sagt að „launakjör háskólamanna ráðast af því sem um semst á markaði.“ Sumir atvinnurekendur kjósa að túlka samninginn á þann veg að einungis komi til launahækkana í launaviðtölum og neita að fara eftir lágmarkshækkunum sem orðið hafa hjá öðrum hópum.
Tölur sýna að kaupmáttur sérfræðinga á íslenskum vinnumarkaði hefur ekki aukist með sambærilegum hætti á undanförnum áratugum og hjá ófaglærðu starfsfólki. Sú þróun er til þess fallin að letja einstaklinga að sækja sér æðri menntun. Launaþróunin sýnir að menntun er ekki metin til launa með sama hætti og áður. Þó flestir geti tekið undir að viss launajöfnuður sé af hinu góðu er nauðsynlegt að launasetning taki ávallt mið af menntun, reynslu starfsfólks og eftirspurn á vinnumarkaði. - Hið síðastnefnda á sérstaklega við um verkfræðinga og tæknifræðinga þar sem skortur er á tæknimenntuðu fólki.
Samninganefndir VFÍ hafa ekki setið auðum höndum þó stundum þurfi þær að bíða óþarflega lengi eftir fundum með viðsemjendum. Nefndirnar hafa hist á fundum í Verkfræðingahúsi, farið yfir stöðu mála og borðið saman bækur sínar. Einnig hafa þær fengið upplýsingar úr ýmsum áttum, til dæmis gögn frá kjaratölfræðinefnd og fræðslu um jafnlaunavottun. Það er ljóst að launagreiðendur eru margir hverjir á villigötum með hvernig þeir nota jafnlaunavottun sem afsökun í launaviðtölum fyrir því að ekki sé hægt að hækka laun.
Skýring:
Stéttarfélag tölvunarfræðinga og Stéttarfélag byggingafræðinga eru með þjónustusamning við Verkfræðingafélagið á sviði kjaramála. Skrifstofa VFÍ vinnur því að kjarasamningsgerð fyrir þessi félög.