Ný heimildamynd frumsýnd: Trúin á tæknina

Svipmyndir úr sögu verkfræði og tækniframfara á Íslandi.

17. okt. 2024

Fimmtudaginn 17. október, var frumsýnd fyrir fullu húsi í Bíó Paradís ný heimildamynd: Trúin á tæknina. - Svipmyndir úr sögu verkfræði og tækniframfara á Íslandi. Verkfræðingafélag Íslands ákvað að ráðast í gerð myndarinnar í tilefni af 110 ára afmæli félagsins árið 2022. 

Höfundar myndarinnar eru þeir Adrian Freyr Rodriques og Einar Kári Jóhannsson. Ingi Kristján Sigurmarsson klippti og gerði hreyfigrafík, Guðlaugur Hörðdal samdi tónlistina og gerði hljóðmynd, sögumaður er Svandís Dóra Einarsdóttir og Egill Viðarsson tók upp og vann innálestur. (Á mynd frá vinstri: Guðlaugur, Ingi, Einar, Adrian og Egill). 

Verkfræðingafélag Íslands ákvað að ráðast í gerð myndar um sögu verkfræði á Íslandi - samtíð og framtíð - í tilefni af 110 ára afmæli félagsins árið 2022. Trúin á tæknina fjallar um helstu vörður í verkfræði og tæknisögu Íslands, allt frá komu fyrstu verkfræðimenntaðra manna til landsins í upphafi 20. aldar til dagsins í dag.

Til umfjöllunar eru jafnfjölbreytt viðfangsefni og vegagerð, virkjanir, hafna- og vitagerð, byggingaframkvæmdir, hitaveita, íslenskur iðnaður, háhitaboranir, hugbúnaðargerð, rafeindatækni og margt fleira.

Þetta er mynd um nútímavæðingu Íslands með áherslu á tæknina sjálfa og verkfræðiþekkinguna sem Íslendingar hafa öðlast.

Mikill metnaður var lagður í gerð myndarinnar, myndefnið er úr fjölmörgum áttum, sem sumt hefur ekki komið fyrir augu almennings áður. 

Frábærar viðtökur

Óhætt er að segja að myndin hafi hlotið frábærar viðtökur og komið mörgum á óvart hversu mikið var lagt í gerð hennar, hvort sem litið er til textagerðar, myndvinnslu, tónlistar og hljóðvinnslu eða annars. Nú verður unnið að því að myndin verði tekin til sýningar í sjónvarpi og einnig var markmið með gerð hennar að hún nýtist við kennslu og í kynningarstarfi VFÍ. Hér fyrir neðan eru nokkrar myndir af frumsýningargestum.