Byggingarannsóknir og áhrif myglu

Byggingarannsóknir verður að endurvekja.

6. apr. 2024

svana_helenGreinin birtist í Morgunblaðinu 6. apríl og vakti mikla athygli. Umfjöllun fjölmiðla, m.a. viðtöl við Svönu Helen eru neðst á síðunni.

Mygla er útbreytt vandamál í húsum, bæði í íbúðarhúsnæði og opinberum byggingum. Áhrif myglu á heilsufar fólks eru mismunandi. Sumir veikjast illa og til langframa en aðrir verða fyrir áhrifum sem eru dulin, erfitt er að greina og eru lengi að koma fram. Mygla hefur áhrif á bæði hormónakerfi og taugakerfi líkamans. Um þetta vitna þeir sem veikst hafa. Þó skortir enn staðfestar vísindarannsóknir á heilsufarsáhrifum myglu. Það er löngu tímabært að rannsaka þessi áhrif nánar og það mætti til dæmis gera í gegnum skráningu hjá VIRK.

Saga byggingarrannsókna á Íslandi

Háskóli Íslands var stofnaður 1911 og ári síðar var Verkfræðingafélag Íslands stofnað. Fulltrúar félagsins hófu fljótlega að beita sér fyrir því að verkfræði yrði kennd við skólann og þeir gerðu sér einnig grein fyrir því að tengja þyrfti námið hnattstöðu Íslands og staðháttum. Atvinnudeild HÍ var stofnuð 1937 í því skyni að stunda hagnýtar tæknirannsóknir og síðan var verkfræðideild HÍ formlega stofnuð árið 1942, tveimur árum eftir að HÍ flutti starfsemi sína í aðalbyggingu skólans.

Byggingarrannsóknir hófust af alvöru við HÍ árið 1947. Hluti af Marshall-aðstoð sem Íslendingar þáðu frá Bandaríkjunum að lokinni síðari heimsstyrjöldinni fór í að kaupa tæki og búnað til byggingarrannsókna á Íslandi. Á þessum tíma ríkti almennur skilningur á mikilvægi byggingarrannsókna og þýðingu þeirra fyrir komandi kynslóðir. Verið var að byggja upp innviði landsins, m.a. vegi, brýr, hafnir, hitaveitu, orkuver, raforkudreifikerfi og fjarskiptakerfi. Opinberar byggingar voru reistar, þ.m.t. spítalar og skólar. Einnig íbúðarhúsnæði sem hannað var og byggt fyrir fjölskyldufólk þannig að það gæti lifað við heilsusamlegar aðstæður. Til varð svokölluð húsbyggingartækni innan byggingarrannsókna þar sem lögð var áhersla á efnisval, aðferðafræði og margbreytilegar kröfur. Markmiðið var meðal annars að rannsaka þéttleika og mótstöðu byggingarefna gagnvart vatni og vindum, endingu þeirra, hagkvæmni og orkunýtingu. Þá voru loftgæði innan húss rannsökuð og síðar einnig hljóðvist og ljósvist.

Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins

Fyrrnefndar byggingarrannsóknir skiluðu strax miklum árangri og fóru þær fram í nánu samstarfi við iðnaðarmenn og verktaka. Mönnum var ljóst að meira álag er á mannvirki hér á landi frá náttúrunnar hendi en víðast í Evrópu. Þar kemur til slagregn, tíð frost og svokölluð frostþíðuáhrif, mikið vindálag og jarðskjálftar. Fátt er um innlend byggingarefni og hafa Íslendingar reitt sig á innflutt efni. Eftir því sem tímar liðu jókst úrval byggingarefna en oft var óvissa um endingu og þol við íslenskar veðuraðstæður. Því þótti nauðsynlegt að stofna Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins (Rb) árið 1967 sem sjálfstæðri rannsóknarstofnun. Rannsóknirnar snérust ekki aðeins um að rannsaka og prófa, heldur einnig um að miðla þekkingu og eiga samstarf við hönnuði og verktaka. Hönnuðir, meðal annarra verkfræðingar og arkitektar, sækja menntun víða um heim þar sem oft er lítil sem engin þekking er á séríslenskum aðstæðum. Hér á landi varð til byggingareðlisfræði sem miðlað var áfram. Einn af frumkvöðlum hennar var dr. Guðni A. Jóhannesson, síðar orkumálastjóri, sem rannsakaði varmatregðu húsa og áhrif kuldabrúa á orkunotkun húsa og sveppagróður – sem er í raun mygla.

Dæmi um árangur

Þegar vart varð við alkalískemmdir í steyptum húsum á Íslandi hóf Rb að rannsaka mögulegar orsakir. Þær rannsóknir skiluðu því að bæði sement og fylliefni voru bætt og alkalívandinn hvarf. Jafnframt voru gerðar tilraunir með viðgerðir á alkalískemmdum húsum á árunum 1980-1983. Unnið var að þróun lausna, meðal annars klæðningu bygginga með og án einangrunar. Sílaninndreyping í steypta útveggi var þróuð og komið á markað 1983. Þetta var ódýr lausn sem vakti alþjóðlega athygli.

Af öðrum rannsóknum sem stundaðar voru innan Rb má nefna rannsóknir á þökum og samskeytum þeirra við útveggi, þ.m.t. vindvörn, vatnsvörn, loftræsingu og rakavarnarlag. Rannsóknir voru gerðar á einangrunargleri sem skiluðu margfaldri endingu. Múreinangrunarkerfi voru rannsökuð og leiddi það til þess að kerfi með óviðunandi endingu hurfu af markaði. Loks má nefna að Rb stundaði einnig rannsóknir á kostnaði og hagrænum áhrifum byggingarrannsókna. Það leiddi til þess að skilgreint var svokallað vísitöluhús og í samstarfi Rb og Hagstofu Íslands var byggingarvísitalan þróuð.

Miðlun þekkingar

Sérfræðingar Rb öfluðu margs konar hagnýtrar þekkingar og skilgreint markmið stofnunarinnar var að miðla henni áfram. Það var gert með útgáfu hinna svokölluðu Rb-blaða. Þau geyma mikla þekkingu og reynslu og eru í reynd auður sem mikilvægt er að varðveita og þróa áfram. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) hefur fengið það hlutverk eftir að starfsemi Rb var endanlega lögð niður árið 2022. Rb-blöðin eru nú aðgengileg hjá HMS án endurgjalds og ættu að vera skyldunámsefni iðnaðarmanna og hönnuða.

Byggingarrannsóknir verður að endurvekja

Það var vanhugsuð ákvörðun að leggja niður Rb. Ef fólk efast um að enn sé þörf fyrir slíkar rannsóknir er rétt að minna á eftirfarandi:

 

  • Byggingarefni flæða inn í landið og enginn ber ábyrgð á að rannsaka og prófa gæði þeirra við íslenskar aðstæður eða leiðbeina um rétta notkun.
  • Þörf er á rannsóknum og ráðgjöf um nýjar byggingaraðferðir.
  • Íslenski útveggurinn með einangrun að innan er á útleið og nú er algengt að einangrun sé sett utan á hús. Þessi breyting þýðir breytta innsetningu glugga. Við þessa breytingu hefur lekavandamálum fjölgað og í kjölfarið verða myglu- og rakavandamál enn algengari.

 

Ástandið er grafalvarlegt. Heilu byggingarnar hafa orðið myglu að bráð. Nýlega byggt Orkuveituhúsið er ein þeirra. Þá glíma flest sveitarfélög landsins við mygluvandamál í skólabyggingum sem kosta fjárútlát sem virðast endalaus. Það er mygla víðs vegar í sjúkrahúsum og öðrum opinberum byggingum. Vandamál í eldra húsnæði eiga sér e.t.v. aðrar skýringar en í nýju húsnæði. Staðreyndir tala sínu máli. Á sama tíma veikist fólk og tapar heilsu, jafnvel fyrir lífstíð. Duldu mygluáhrifin sem margir telja að geti með tímanum valdið brjóstakrabbameini hjá konum og valdið langvarandi truflun á taugakerfi fólks eru mikilvægt rannsóknar – og úrlausnarefni.

Þegar starfsemi Rb var lögð niður lágu kostnaðarástæður til grundvallar. Ég efast um að þeir kostnaðarútreikningar standist. Ávinningur af byggingarrannsóknum hér á landi er skýr. Hafa stjórnmálamenn sem stóðu að niðurlagningu Rb leitt hugann að fórnarkostnaði við niðurlagninguna? Hvers virði er töpuð heilsa og vinnugeta fólks, bæði nú og í framtíðinni, að ekki sé talað um kostnaðinn við að uppræta myglu og endurbyggja húsnæði sem sýkst hefur?

Dagur verkfræðinnar og IMaR 18.-19. apríl 2024

Á Degi verkfræðinnar 19. apríl nk. og á alþjóðlegri IMaR-ráðstefnu (Innovation, Megaprojects and Risk) sem haldin verður 18. apríl í samstarfi við Háskólann í Reykjavík og í tengslum við Dag verkfræðinnar verður m.a. fjallað um það hvernig staðið er að byggingarrannsóknum í Portúgal. Þar í landi leggja stjórnvöld mikla áherslu á byggingarrannsóknar af margvíslegu tagi, m.a. vegna jarðskjálftahættu. Það eru allir velkomnir á báða þessa viðburði og upplýsingar um þá má finna á vef Verkfræðingafélags Íslands, www.vfi.is og á www.imar.is.

Svana Helen Björnsdóttir, formaður Verkfræðingafélags Íslands.

Umfjöllun fjölmiðla 

Morgunútvarp Rásar 2- viðtal

Umfjöllun mbl.is

Reykjavík síðdegis - Bylgjan - viðtal

Viðbrögð Húseigendafélagsins - mbl.is