Úrgangi breytt í orku

Fýsileiki brennslustöðvar staðfestur í nýrri skýrslu.

13. apr. 2024

Niðurstöður nýrrar skýrslu sýna að hagkvæmara er að reisa brennslustöð fyrir úrgang hér á landi en að flytja hann út til brennslu erlendis. Brennsluverkefnið verður kynnt á IMaR ráðstefnunni 18. apríl og á Degi verkfræðinnar 19. apríl.

Svana_helen_bjornsdottir01Hér á landi hefur lengi tíðkast að urða úrgang sem engin not eru fyrir. Eldra fólk man enn eftir opnum öskuhaugum bæði í fjörunni við gatnamót Hringbrautar og Eiðisgranda í Reykjavík og einnig uppi í Gufunesi. Í mörg ár hefur úrgangur af öllu höfuðborgarsvæðinu verið baggaður og urðaður í Álfsnesi. Nú hefur náðst samkomulag milli sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um að stöðva urðun í Álfsnesi í síðasta lagi 2030 og hefja uppbyggingu á útivistarsvæði á Álfsnesi með fallegum gróðri, hjólastígum og göngustígum.

Hvað verður um allan úrganginn?

Fæstir velta því fyrir sér hvað verður um úrganginn eftir að hann er kominn í tunnuna. Nýju hringrásarlögin sem tóku gildi í upphafi árs 2023 höfðu í för með sér nýtt flokkunarkerfi fyrir heimilisúrgang. Markmið þessa kerfis er að mest af vöru sé endurnotuð með einhverjum hætti, t.d. húsbúnaður og fatnaður. Annað sé endurunnið, s.s. pappír, plast, málmar og gler. Lífrænum úrgangi skal breytt í frjósama moltu. En hvað verður um það sem afgangs verður og ekki er endurnýtanlegt með neinum hætti? Áætlað er að magn slíks úrgangs sé allt að 140 þúsund tonn á ári á landsvísu, og þann úrgang má brenna og framleiða bæði raforku, yfir 10 MW, og heitt vatn.

Könnun á fýsileika

Eftir að ákveðið var að hætta urðun í Álfsnesi hóf SORPA, byggðarsamlag í eigu sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, útflutning til brennslu á þeim úrgangi sem áður var urðaður í Álfsnesi. Áður höfðu sorphirðufyrirtæki hér á landi hafið slíkan útflutning á úrgangi frá fyrirtækjum. Þetta er þó tæplega varanleg lausn fyrir Íslendinga þar sem nýlegar Evróputilskipanir um sjálfbærni Evrópuríkja í úrgangsmálum (eins og öðrum málum) og aðgerðir ríkjanna til að stemma stigu við úrgangi með álagningu kolefnisskatts á úrgang eru þegar farnar að virka sem hömlur í ríkjum eins og Bretlandi, Hollandi og Þýskalandi. Við Íslendingar verðum því að horfast í augu við það, eins og aðrar þjóðir, að verða sjálfbær í okkar úrgangsmálum. Til að kanna fýsileika þess að reisa eina landsbrennslustöð á suðvesturhorni landsins og e.t.v. aðra minni á Norðurlandi, hafa á síðustu þremur árum verið unnin tvö forverkefni af hópi sérfræðinga í rannsóknarskyni. Því síðara er nýlokið.

Hagkvæmara en útflutningur

Höfundur þessarar blaðagreinar er einn þeirra sérfræðinga sem komið hafa að báðum forverkefnunum, en þau hafa verið unnin undir stjórn dr. Helga Þórs Ingasonar, prófessors við Háskólann í Reykjavík. SORPA og sveitarfélögin sem að henni standa ásamt umhverfis- og auðlindaráðuneytinu höfðu frumkvæði að forverkefni sem nýlega lauk um brennsluverkefnið. Niðurstöður sýna að hagkvæmara er að reisa brennslustöð fyrir úrgang hér á landi en að flytja hann út til brennslu erlendis. Þá sýna niðurstöður einnig að mun hagkvæmara er að reisa eina landsbrennslustöð, t.d. í Helguvík, en tvær brennslustöðvar þar sem sú minni yrði staðsett á Eyjafjarðarsvæðinu. Nýlega kom út skýrsla um þessa fýsileikakönnun sem mikil þörf er á að kynna.

Brennsluverkefnið kynnt

Nú er mál til komið að sveitarstjórnarfólk og almenningur þessa lands fái upplýsingar um brennsluverkefnið, fái aðgang að skýrslunni sem gerð hefur verið um verkefnið og fái tækifæri til að hlýða á og spyrja sérfræðinga um málið. Innlendir og erlendir fyrirlesarar hafa verið fengnir til fjalla um brennsluverkefnið sem hér um ræðir á alþjóðlegu IMaR ráðstefnunni sem Verkfræðingafélag Íslands heldur ásamt Háskólanum í Reykjavík þann 18. apríl nk. IMaR ráðstefnan er haldin í tengslum við Dag verkfræðinnar þann 19. apríl. Þá verður fjölbreytt dagskrá um margvísleg verkfræðileg viðfangsefni og tækniáskoranir framtíðarinnar. Sú dagskrá er opin öllum almenningi án kostnaðar. Dagskrá beggja viðburða má lesa á vef Verkfræðingafélagsins, www.vfi.is.

Svana Helen Björnsdóttir, formaður Verkfræðingafélags Íslands.

Ljósmynd: Álfsnes/SORPA.