• foss_regnbogi

Niðurstöður kjarakönnunar 2019

Launaviðtöl borga sig.

24. jún. 2019

Niðurstöður kjarakönnunar Kjaradeildar VFÍ liggja fyrir. Spurt var um laun í febrúar 2019. Með því að skoða laun eftir starfsaldri, lífaldri, fagsviði og starfssviði má nálgast þau markaðslaun sem við eiga fyrir hvern einstakling.

Leiðréttur kynbundinn launamunur 

Sérstök greining var gerð á leiðréttum kynbundnum launamun meðal verkfræðinga eins og sjá má á bls. 30 í könnuninni. Þegar búið er að stýra fyrir áhrifum aldurs, starfsaldurs, menntunar, stjórnunarstöðu, starfsvettvangs og starfssvæðis voru karlar að jafnaði með 2,5% hærri grunnlaun en konur, en sá munur var hins vegar ekki tölfræðilega marktækur. Þessar niðurstöður gefa til kynna að ekki er hægt að staðhæfa hvort það sé munur á launum verkfræðimenntaðra í fullu starfi með samsvarandi aldur, starfsaldur, menntun, stöðu, starfsvettvang og starfssvæði.

Rétt er að taka fram að þar sem hlutfallslega fáar konur eru í hópi tæknifræðinga þá var ekki unnt að gera greiningu á leiðréttum kynbundnum launamun.

Launaviðtöl

Enn og aftur kemur í ljós að launviðtöl borga sig. Athygli vekur að 39,3% verkfræðinga og tæp 30,8% tæknifræðinga fóru í launaviðtal á árinu 2018. Er það svipað hlutfall og á fyrra ári. Yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem fóru í viðtal fengu launahækkun í kjölfarið. (Verkfræðingar 84,7% og tæknifræðingar 77,4%). 

Námskeið í launaviðtölum hefur verið vel sótt. Næsta námskeið verður haldið í haust. Það verður auglýst á vef VFÍ, á Facebook og með tölvupósti til félagsmanna. 

Kjarakönnun Kjaradeildar VFÍ 2019 - Verkfræðingar.

Kjarakönnun Kjaradeildar VFÍ 2019 - Tæknifræðingar.