Ný skýrsla: Virkjum möguleika Evrópu
Hæfni í STEM-greinum og samkeppnisstaða Evrópu.
Verkfræðingafélag Íslands er aðili að ANE (Association of Nordic Engineers). Nýverið kom út skýrsla um stöðu STEM-greina og mikilvægi þeirra til að tryggja samkeppnishæfni Evrópu. Í skýrslunni er ítarleg greining sem sýnir skort á STEM-hæfni og hvatt er til tafarlausra inngripa með stefnumótun.
Skýrslan „Að endurheimta forskot Evrópu: Samkeppnisforskot með STEM-hæfni“ fjallar um mikilvægt hlutverk STEM-greina (vísindi, tækni, verkfræði og stærðfræði) við að viðhalda alþjóðlegri samkeppnishæfni Evrópu.
Skýrslan byggir á margvíslegum heimildum, þar á meðal samþykktum og stefnumótun ESB, skýrslum alþjóðastofnana eins og OECD, hugveitum og fræðilegum rannsóknum. Lagt er mat á áskoranir Evrópu í alþjóðlegri samkeppni vegna skorts á STEM-hæfni. Með hliðsjón af niðurstöðunum hefur ANE lagt fram stefnumótandi tillögur vegna stefnuskrár framkvæmdastjórnar ESB 2024–2029.
Innleiðing STEM-hæfni í dagskrá Evrópuráðsins
Í skýrslunni er niðurstaðan sú að efld STEM-hæfni sé nauðsynleg til að styrkja samkeppnishæfni Evrópu, sérstaklega í hátækniiðnaði þar sem nýsköpun knýr hagvöxt. Þó menntun sé fyrst og fremst á ábyrgð einstakra ríkja verður ekki tekist á við skort á STEM hæfni nema með víðtækum og þverfaglegum aðgerðum. ANE leggur til að STEM-hæfni verði sjálfstætt viðfangsefni og reglulega til umræðuá fundum Evrópuráðsins, sérstaklega í tengslum við iðnað, velmegun, samkeppni og tækniábyrgð. Að auki ætti STEM að vera sérstakt áherslusvið í skýrslum Evrópusamstarfsins um menntun, þjálfun, símenntun og atvinnu.
Aukið opinbert fjármagn til rannsókna og nýsköpunar
Aukið opinbert fjármagn til rannsókna og nýsköpunar er lykilatriði til að stuðla að tækniframförum í Evrópu. Slík fjármögnun styður tæknifyrirtæki og skapar umhverfi sem stuðlar að nýsköpun og eykur hagvöxt og sjálfbærni. Með því að draga úr áhættu sem tengist fjármögnun af þessu tagi getur aukið opinbert fjármagn einnig stuðlað að meiri fjárfestingum einkaaðila.
ANE mælir með því að ESB auki opinbera fjármögnun til rannsókna og nýsköpunar og leggi áherslu á fjárfestingar í byltingarkenndri tækni til að efla samkeppnishæfni og getu til nýsköpunar. Jafnframt eigi ESB að þróa og kynna fjármögnunaráætlanir fyrir uppbyggingu fyrirtækja og endurskoða nýsköpunarkerfi ríkja og samstarf á því sviði yfir landamæri.
Með fjárfestingum til lengri tíma eru lífeyrissjóðir vel fallnir til að fjárfesta í áhættufjármagnsverkefnum sem þurfa tíma til að þroskast. ESB ætti að hvetja stóra lífeyrissjóði til að fjárfesta í verkefnum á sviði nýsköpunar og nýrrar tækni
Þverfagleg STEM-áætlun fyrir ESB
Aukin STEM hæfni felur í sér meira en menntun; hún þarf einnig að ná yfir rannsóknir, samstarf við iðnað og þróun vinnuafls til að skapa sterkt kerfi sem styður við nýsköpun og eykur samkeppnishæfni. ANE leggur til að framkvæmdastjórn ESB móti sterka STEM-áætlun fyrir ESB.
Áætlunin ætti að beina sjónum að því að áhuga ungmenna á STEM, bæta starfsmenntun, fjölga nemendum í tæknigreinum, sérstaklega konum, stuðla að símenntun og styðja við alþjóðlegan hreyfanleika.
Áskorun til aðgerða
Við hvetjum nýja framkvæmdastjórn ESB til að hlusta á verkfræðinga og gera STEM-hæfni að forgangsatriði á stefnuskrá sinni. Ef þessi mikilvæga áskorun er hunsuð er hætt við að Evrópa dragist enn frekar aftur úr í alþjóðlegu kapphlaupi á sviði nýsköpunar.
Í frétt á vef ANE er hægt að nálgast skýrsluna í heild og tillögurnar sömuleiðis.