Samstarfssamningur við Pragma

Samstarf við nemendur í tæknifræði og verkfræði í HR.

16. des. 2024

Verkfræðingafélagið og Pragma nemendafélag iðn-, tækni- og verkfræðinema í Háskólanum í Reykjavík hafa gert samning um að efla samstarfið, meðal annars með því að kynna starfsemi VFÍ og veita nemendum fræðslu og stuðning. Stefnt er að því að fjölga ungfélögum í VFÍ og kynna fyrir nemendum hvað felst í aðild að VFÍ. Félagið mun veita Pragma fjárhagslegan stuðning og er upphæðin ákveðin árlega. 

VFÍ hefur um langt árabil styrkt nemendafélögin í HR og HÍ og verkefni á þeirra vegum eins og Hönnunarkeppina og útgáfu tímarita. Einnig er nemendum boðið í vísindaferðir í Verkfræðingahúsið. VFÍ mun vinna að því að koma á svipuðu samstarfi við nemendafélög í HÍ.

Á myndinni eru Orri Thor Eggertsson varaformaður Pragma og Árni B. Björnsson, framkvæmdastjóri VFÍ.


Ungfélagar í VFÍ greiða ekki félagsgjöld 

Ungfélagar í VFÍ greiða ekki félagsgjöld. Nemendur sem eru í 100% starfi, til dæmis sumarvinnu, greiða fullt félagsgjald, enda ávinna þeir sér full réttindi í sjóðum. Nemendur sem eru í hlutastarfi með námi greiða ekki félagsgjald.

Athugið að VFÍ hefur ekki tök á að fylgjast með atvinnuþátttöku nemenda og verða þeir sem vilja fá fellt niður félagsgjaldið að láta vinnuveitanda vita og/eða hafa samband við skrifstofu VFÍ, skrifstofa@verktaekni.is


Afhverju Verkfræðingafélagið?

Mikilvægt er að kynna sér vel hvað hin ýmsu stéttarfélög eru raunverulega að bjóða.
Hvaða þjónusta er í boði? Hversu hátt er félagsgjaldið? Og ekki síst - á ég samleið með öðrum félagsmönnum, eru hagsmunir okkar sambærilegir?

Verkfræðingafélag Íslands er fagfélag og kjarafélag verkfræðinga og tæknifræðinga á Íslandi. Félagið er lögformlegur samningsaðili um kaup og kjör félagsmanna. - Með öðrum orðum; önnur stéttarfélög gera ekki kjarasamninga fyrir hönd verkfræðinga og tæknifræðina.

Það skiptir miklu máli að vera í traustu stéttar- og fagfélagi sem hefur langa sögu og tengingu inn í náms- og starfsumhverfi félagsmanna.

Löggilt starfsheiti - nám erlendis

VFÍ er umsagnaraðili um löggiltu starfsheitin verkfræðingur og tæknifræðingur og hjá félaginu er gríðarleg þekking á verkfræðinámi víða um heim sem tryggir að félagið getur liðsinnt háskólanemum varðandi val á framhaldsnámi.


Lágt félagsgjald

Athugið að félagsgjald í VFÍ er lágt miðað við það sem gengur og gerist á íslenskum vinnumarkaði. Félagsgjaldið er föst upphæð, 3.750.- krónur á mánuði en ekki prósenta af heildarlaunum. Ungfélagar greiða ekki félagsgjald.

Dæmi um önnur félög: FÍH (0,9%), VR (0,7%), BHM (allt að 1,5%), Viska (0,95%), Efling (0,7%).

Dæmi af launþega með 900 þúsund í heildarlaun á mánuði:

Félagsgjald í Verkfræðingafélaginu: Kr. 3.750.-
Félagsgjald í Visku (0,95%): Kr. 8.550.-
Mismunur á mánuði: Kr. 4.800.- Mismunur á ári: Kr. 57.600.-

Heiðursfélagar, ungfélagar og félagar sem eru í fullu námi greiða ekki félagsgjöld. Félagar sem hafa náð 70 ára aldri eða eru hættir að vinna sökum aldurs greiða ekki félagsgjald.

Allir félagsmenn í VFÍ, hvort sem þeir greiða félagsgjald eða ekki, geta sótt rafrænt félagsskírteini sem veitir ýmiss konar afslætti.