Nýárskveðja frá formanni VFÍ
Svana Helen Björnsdóttir formaður Verkfræðingafélags Íslands.
Kæru félagar í Verkfræðingafélagi Íslands.
Ég vona að árið 2025 fari vel af stað hjá ykkur öllum. Félagsstarfið fer a.m.k. vel af stað. Félagafjölgunin í VFÍ hefur verið stöðug um langt árabil og svo var einnig á nýliðnu ári. Nú styttist óðum í að 6.000 félagsmanna múrinn verði rofinn. Sem fyrr er fjárhagsleg staða félagsins og sjóða í vörslu þess góð.
Erfið staða í kjaraviðræðum
Eins og búist var við í upphafi síðastliðins árs markaðist starfsemi VFÍ mjög af kjaraviðræðum sem hafa reynst tímafrekar og erfiðar. Ég hef margsinnis haldið því á lofti sem formaður Verkfræðingafélagsins að tími sé til kominn að rétta hlut háskólamenntaðra. Þar hef ég sagt að vissulega sé nauðsynlegt að meta menntun til launa „en jafnframt að ekki eigi að líta á menntunarstig sem slíkt heldur verði að taka tillit til eftirspurnar á vinnumarkaði og þarfa samfélagsins. Með öðrum orðum; mikil eftirspurn er eftir tæknimenntuðu fólki og það á að endurspeglast í góðum starfskjörum.“ – Eins og ég orðaði það í skilaboðum mínum til félagsmanna fyrir ári síðan. Þetta hefur því miður reynst þungur róður fyrir samninganefndir og starfsfólk félagsins. Ekki hefur verið hljómgrunnur fyrir úrbótum á þeim vafasama heiðri fyrir íslenskt samfélag að hér sé minnstur munur í Evrópu á ráðstöfunartekjum háskólamenntaðra og ófaglærðra.
Ég hef átt virkt samtal við formenn BHM, Læknafélagsins og Hjúkrunarfræðingafélagsins. Í október tókum við saman höndum og skrifuðum grein sem birtist á visi.is þar sem við minntum á stöðu háskólamenntaðra á Íslandi. Greinin hefst á þessum orðum: „Staðan í kjaraviðræðum og lítill skilningur á stöðu háskólamenntaðra á vinnumarkaði veldur áhyggjum. Ekki einungis gagnvart einstaklingum sem hafa þurft að þola umtalsverða kjararýrnun heldur er framtíð og menntunarstig þjóðarinnar í húfi. – Það er kjarni málsins.”
Vil ég nota þetta tækifæri til að þakka samninganefndum félagsins sérstaklega fyrir óeigingjarnt starf. Seta í samninganefndum getur tekið á og verið lýjandi á svo margvíslegan máta.
Á síðustu misserum hefur framboð af námskeiðum og samlokufundum sem er ætlað að efla félagsmenn í lífi og starfi verið aukið. Hvort sem það eru hefðbundin launaviðtalsnámskeið eða námskeið sem varða einstaklinginn og þær áskoranir sem hann stendur frammi fyrir í daglegu lífi. Þetta teljum við afar mikilvægt þegar við stöndum frammi fyrir því að kulnun og svokallað „lífsþreytuástand“ verður meira íþyngjandi fyrir sjúkrasjóði félagsins ár frá ári.
Frumsýning nýrrar myndar
Verkfræðingafélagið hefur þá sérstöðu að innan þess fer fram öflugt faglegt starf samhliða hefðbundinni starfsemi á sviði kjaramála. Það er staðföst trú okkar, sem erum í forsvari fyrir félagið, að þessir þættir haldist í hendur við hagsmunagæslu fyrir félagsmennina og verkfræðina sem slíka.
Einn af hápunktum ársins 2024 í starfi VFÍ var frumsýning nýrrar heimildamyndar: Trúin á tæknina. – Svipmyndir úr sögu verkfræði og tækniframfara á Íslandi. Myndin var frumsýnd 17. október sl. fyrir fullu húsi í Bíó Pardís. Er skemmst frá því að segja að myndin hlaut einróma lof og kom mörgum á óvart hversu mikið var lagt í gerð hennar, hvort sem litið er til textagerðar, myndvinnslu, tónlistar eða hljóðvinnslu. Frá frumsýningardegi hefur verið unnið að því að fá myndina sýnda sem víðast, meðal annars í sjónvarpi. Þá á einnig að þýða og textasetja myndina á ensku þannig að hún nýtist sem best, m.a. við kennslu, og að sem flestir geti notið hennar.
Gæði í byggingariðnaði
Síðustu misseri hefur VFÍ vakið athygli á krefjandi verkefnum í byggingariðnaði, sem varða nauðsyn þess að bæta stöðuna í byggingarrannsóknum og taka á slökum gæðum bygginga. Skrifaðar voru greinar og farið í viðtöl í fjölmiðlum sem vöktu athygli, einnig var haldið málþing um hvernig megi auka gæði í byggingariðnaðinum. Verkfræðingafélagið og Félag ráðgjafarverkfræðinga (FRV) eiga fulltrúa í Vísindaráði mannvirkjagerðar sem hefur það hlutverk að marka stefnu um rannsóknir í húsnæðis- og mannvirkjamálum til lengri og skemmri tíma. Haldin var vinnustofa til að fá fram sjónarmið félagsmanna VFÍ hvað varðar möguleg viðfangsefni og rannsóknaþörf.
Úrbætur í menntamálum
Verkfræðingafélagið hefur tekið virkan þátt í umræðu um stöðu menntakerfisins. Sjálf hef ég ritað greinar um það efni og tekið þátt í ráðstefnum og fundum. VFÍ hélt ráðstefnuna: Sátt um betra menntakerfi, sem var mjög vel sótt og kom þar margt athyglisvert fram. Markmiðið var að greina stöðuna í menntakerfinu og hvaða leiðir eru færar til úrbóta. Sérstök áhersla var á stöðu raungreina og fulltrúi frá sænska verkfræðingafélaginu sagði frá átaki þar í landi til að efla stöðu svokallaðra STEM-greina (Science, Technology, Engineering, Mathematics).
Dagur verkfræðinnar
Dagur verkfræðinnar var sem fyrr mjög vel sóttur og vakti athygli. Við það tilefni var Teningurinn afhentur Almannavörnum fyrir varnaraðgerðir vegna eldsumbrota á Reykjanesi. Aðgerðirnar hafa vakið verðskuldaða athygli, ekki síst út frá verkfræðilegu sjónarhorni. Víðir Reynisson tók á móti Teningnum fyrir hönd Almannavarna, einnig voru viðstaddir starfsmenn frá verkfræðistofunum Verkís og Eflu sem hafa verið í lykilhlutverkum. Samhliða Degi verfræðinnar var í annað sinn haldin alþjóðleg IMaR ráðstefna (Innovation, Megaprojects and Risk) með þátttöku erlendra fyrirlesara og gesta. Á ráðstefnunni var kastljósi beint að opinberum stórframkvæmdum sem rannsóknir sýna að fara mjög oft langt fram úr kostnaðar- og tímaáætlunum. 20. febrúar nk. mun Verkfræðingafélagið í samvinnu við m.a. Háskólann í Reykjavík, Vegagerðina og Betri samgöngur efna til ráðstefnu um stórframkvæmdir á Íslandi. Kastljósi verður beint að samgönguverkefnum hins svokallaða samgöngusáttmála og nauðsyn þess að verkefnastjórnsýsla sé vönduð í slíkum verkefnum. Fyrirlesarar verða innlendir og erlendir sérfræðingar, m.a. frá fjármálaráðuneyti Noregs.
Dagur verkfræðinnar 2025 verður 28. mars nk. Enn er tækifæri til að koma hugmyndum á framfæri og senda inn tilnefningar vegna Teningsins.
Fjölskyldudagur verkfræðinnar var haldinn í sjötta sinn og var vel sóttur. Viðburðurinn var sem fyrr í samstarfi við Vísindasmiðju Háskóla Íslands. Í þessu sambandi má nefna að VFÍ styrkti eins og áður Legókeppni grunnskólanna og önnur smærri verkefni til að efla áhuga yngri kynslóðarinnar á vísindum og tækni.
Metþátttaka í rýniferðunum
Enn eitt árið var farin afar vel heppnuð rýniferð, að þessu sinni til Istanbúl með frábærri leiðsögn Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur og Hjörleifs Sveinbjörnssonar. Ferðanefndin lét ekki deigan síga og kynnti til sögunnar ferð til Japans í lok ágúst 2025. Gríðarlegur áhugi reyndist vera á ferðinni sem kom reyndar ekki á óvart. Nú er ráðgert að þátttakendur verði 270 og er það met.
Sterk fjárhagsleg staða – lág félagsgjöld
Eins og kom fram hér að framan er rekstur Verkfræðingafélagsins og sjóða í umsjón þess mjög traustur. Félagsgjöldin hafa verið óbreytt frá árinu 2017. Rétt er að vekja enn og aftur athygli á þeirri sérstöðu félagsins að félagsgjaldið er lágt; föst fjárhæð en ekki prósenta af launum. VFÍ hefur því ekki tekið til sín sjálfkrafa hækkanir á félagsgjaldi vegna hækkunar launa, eins og önnur stéttarfélög hafa gert.
Hér að ofan hef ég stiklað á stóru í starfi Verkfræðingafélagsins á árinu 2024 og framundan eru mörg spennandi verkefni. Það er ánægjulegt og gefandi að taka þátt í störfum fyrir félagið og vinna að hagsmunum félagsmanna, hvort sem það er á sviði kjaramála eða við faglegt starf sem er mikilvæg undirstaða þess að hægt sé að sækja betri kjör.
Ég vil hvetja félagsmenn til að koma með ábendingar um það sem þeir telja að megi betur fara í starfsemi félagsins og hugmyndir að verkefnum. Einnig vil ég hvetja ykkur til að bjóða fram krafta ykkar í starfi félagsins og má hafa samband við skrifstofu félagsins eða senda mér tölvupóst. Sérstaklega vil ég hvetja yngri félagsmenn til að leggja félaginu lið og koma sínum sjónarmiðum á framfæri.
Það líður að lokum minnar formennsku í Verkfræðingafélaginu. Ég mun hætta sem formaður á aðalfundi félagsins 29. apríl nk. en samþykktir félagsins leyfa ekki lengri samfellda setu en sex ár. Þessi ár hafa liðið ótrúlega hratt, ekki síst fyrir það hvað starfið hefur verið fjölbreytt, skemmtilegt og gefandi. Ég vonast til að hitta sem flest ykkar á Degi verkfræðinnar 28. mars nk.
Með kærri kveðju,
Svana Helen Björnsdóttir,
formaður Verkfræðingafélags Íslands.