Umbætur í verkefnastjórnsýslu og opinberum fjárfestingum
Ráðstefna VFÍ um risaverkefni var upptaktur að umbótaverkefni.
Verkfræðingafélagið er aðili að samkomulagi um nýjan samráðsvettvang um verkefnastjórnsýslu og opinberar fjárfestingar.
Helgi Gunnarsson formaður Verkfræðingafélagsins, Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra og Ragnhildur Helgadóttir rektor Háskólans í Reykjavík undirrituðu samkomulag um nýjan samráðsvettvang um verkefnastjórnsýslu og opinberar fjárfestingar. Tilgangurinn er að efla samstarf milli fjármálaráðuneytisins, VFÍ og HR á þessu sviði, stuðla að þróun bestu starfsvenja í stjórnsýslu, tengja saman þekkingu og draga fram bestu aðferðir.
Fimm fulltrúar skipa samráðsvettvanginn og eru þrír þeirra valdir af fjármála- og efnahagsráðherra, og einn frá HR og einn frá Verkfræðingafélaginu. Svana Helen Björnsdóttir, fyrrv. formaður VFÍ er fulltrúi félagsins. Samkomulagið gildir til ársloka 2027.
Ráðstefna VFÍ sem haldin var í febrúar sl. „Risaverkefni - Stærðin skipti máli" var upphafið að þessum nýja samráðsvettvangi en þar var undirritið viljayfirlýsing um stofnun hans. Það er nú orðið að veruleika.
Viljayfirlýsing var undirrituð í kjölfar ráðstefnu um risaverkefni.
Á myndinni: Helgi Þór Ingason, Svana Helen Björnsdóttir, Hermann Sæmundsson, Katrín Oddsdóttir, Gunnar Sigurðsson, Helgi Gunnarsson, Daði Már Kristófersson og Ragnhildur Helgadóttir.
Hlutverk samráðsvettvangsins er:
- Að miðla þekkingu á sviði verkefnastjórnar, fjárfestingarmats og gæðamats.
- Að meta kosti og galla verkefnastjórnsýslukerfa og rannsaka hvað gæti hentað fyrir íslenska stjórnsýslu.
- Að leggja mat á hvernig akademísk þekking og rannsóknir geti nýst við stefnumótun og framkvæmd opinberra fjárfestinga.
- Að fjalla um tækifæri til sameiginlegra rannsókna, fræðslu, útgáfu rita og þróunarverkefna á þessu sviði.
- Að leggja til umbætur í verklagi og stjórnsýslu fjárfestingarverkefna hjá hinu opinbera.
- Að meta möguleika og gagnsemi stofnunar samstarfsvettvangs með fleiri lykilhagsmunaaðilum á sviði verkefnastjórnsýslu og opinberra fjárfestinga
Eftirtalin eiga sæti í samráðsvettvanginum:
Hermann Sæmundsson, ráðuneytisstjóri fjármála- og efnahagsráðuneytisins
Gunnar Sigurðsson, sérfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneytinu
Katrín Oddsdóttir, sérfræðingur í fjármála- og efnahagráðuneytinu
Helgi Þór Ingason prófessor við verkfræðideild HR, fulltrúi Háskólans í Reykjavík
Svana Helen Björnsdóttir verkfræðingur, fulltrúi Verkfræðingafélags Íslands
Ánægjulegt að frumkvæði VFÍ leiði til stofnunar samráðsvettvangs
„Það er afar ánægjulegt að sjá að frumkvæði Verkfræðingafélagsins, sem fólst í því að halda ráðstefnuna Risaverkefni – Stærðin skiptir máli í febrúar síðastliðnum, hafi leitt til stofnunar þessa nýja samráðsvettvangs. Þar var fyrst sett fram viljayfirlýsing um að efla samstarf á þessu sviði – og nú er það orðið að veruleika," segir Helgi Gunnarsson formaður VFÍ. „Við hjá VFÍ fögnum því að verkefnastjórnsýsla og opinberar fjárfestingar séu teknar föstum tökum og að áherslan sé á bestu aðferðir, gagnsæi og fagleg vinnubrögð frá upphafi til enda. Opinberar fjárfestingar eru umfangsmiklar og snerta alla samfélagsþróun. Því skiptir miklu máli að undirbúningur, mat, fjármögnun og framkvæmd byggi á sterkri fagþekkingu og vandaðri stjórnsýslu.”
Samráðsvettvangurinn er mikilvægt verkfæri
Í fréttatilkynningu frá fjármálaráðuneytinu er haft eftir Daða Má Kristóferssyni fjármálaráðherra:„Fjárfestingar á vegum hins opinbera eru umfangsmiklar og margvíslegar. Til þeirra renna miklir fjármunir og mikilvægt að allar ákvarðanir, frá upphafi til enda, séu vandaðar og yfirvegaðar. Frá mínum sjónarhóli sem fjármálaráðherra er því til mikils að vinna að ávallt sé beitt bestu aðferðum í stjórnsýslu, sérstaklega í undirbúningi, mati, fjármögnun, framkvæmd og eftirfylgni opinberra fjárfestingarverkefna. Samráðsvettvangurinn er hugsaður sem mikilvægt verkfæri í því verkefni. Ég er afar ánægður með að við vinnum að þessu með Háskólanum í Reykjavík og Verkfræðingafélagi Íslands“.
Ljósmyndari: Viktor Richardsson.
- Næsta færsla
- Fyrri færsla

