Styðjum stelpur til að diffra

VFÍ styrkir verkefnið "Stelpur diffra".

3. júl. 2024

Stjórn VFÍ ákvað nýlega að styrkja verkefnið „Stelpur diffra", námsbúðir í stærðfræði sem munu fara fram dagana 12.-16. ágúst nk. Þetta er í fjórða sinn sem búðirnar eru haldnar. Markmiðið er að kveikja áhuga hjá fleiri stelpum á aldrinum 16-18 ára á stærðfræði og vinna gegn ýmsum staðalímyndum um greinina. Í vikulöngu prógrammi eru þemadagar þar sem farið verður yfir þær greinar sem falla undir Stærðfræðikeppni framhaldsskólanna en einnig verður alls konar skemmtileg stærðfræði skoðuð sem ekki er fjallað um almennt í framhaldsskólum.

Samhliða er unnið að sjálfstyrkingu í gegnum jafnréttisfræðslu og með því að skoða mikilvægi (og ósýnileika) stærðfræðikvenna í gegnum söguna.

Frumkvöðull og stofnandi Stelpur diffra er Nanna Kristjánsdóttir, sem hefur nýlokið BS-námi í stærðfræði frá Háskóla Íslands. Hugmyndin að stærðfræðibúðunum kviknaði þegar Nanna var að ljúka námi frá Menntaskólanun í Hamrahlíð. Hún vann lokaverkefni í MH þar sem hún skoðaði hvernig mætti setja upp slíkar námsbúðir og með stuðningi frá Nýsköpunarsjóði námsmanna þróaði hún hugmyndina sem varð að veruleika 2021. 

Á myndinni er Nanna ásamt Svönu Helen Björnsdóttur formanni VFÍ. 

Nánari upplýsingar á vef Stelpur diffra.