Uppsagnir hjá Skaganum 3X

13 félagsmönnum VFÍ sagt upp.

4. júl. 2024

Fimmtudaginn 4. júlí bárust fréttir af því að Skaginn 3X ehf. á Akranesi hefði óskað eftir því að fyrirtækið yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Við þetta missa 128 starfsmenn vinnuna, þar af fjórir verkfræðingar og 9 tæknifræðingar sem eru félagsmenn VFÍ. Auk þess missa tveir tölvunarfræðingar vinnuna en Stéttarfélag tölvunarfræðinga er með þjónustusamning við VFÍ. 

Boðað hefur verið til Teams fundar með félagsmönnum sem misstu vinnuna föstudaginn 5. júlí kl. 9:00. Þar mun lögfræðingur VFÍ fara yfir réttindi starfsmannanna og svara spurningum. 

Verkfræðingafélagið mun sjá um að innheimta launakröfur fyrir hönd félagsmanna sinna og Stéttarfélags tölvunarfræðinga sem störfuðu hjá fyrirtækinu. Lára V. Júlíusdóttir hrl. mun annast þau mál fyrir félagið. Launakröfur eru forgangskröfur við gjaldþrot fyrirtækja sem þýðir að slíkar kröfur eru greiddar fyrst séu einhverjar eignir fyrir hendi í þrotabúinu. Ef þrotabúið er hins vegar eignalaust eru launakröfur tryggðar hjá Ábyrgðasjóði launa. Ábyrgðasjóður launa ábyrgist greiðslu á kröfum um vangoldin laun, bætur vegna slita á ráðningarsamningi, orlof, bætur vegna vinnuslysa og lífeyrissjóðsiðgjöld í bú vinnuveitanda sem hefur staðfestu og rekur starfsemi hér á landi. Ábyrgð sjóðsins er háð því skilyrði að kröfurnar hafi verið viðurkenndar sem forgangskröfur samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti.

Þau gögn sem þurfa að berast til félagsins vegna innheimtu á launakröfum eru: afrit af ráðningarsamningi, þrír síðustu launaseðlar ásamt útfylltu og undirrituðu umboði til lögmanns VFÍ, sjá meðfylgjandi skjal.

Einnig vill félagið benda á að mikilvægt er að skrá sig hjá Vinnumálastofnun þegar fyrirtæki verður gjaldþrota. Slík skráning er meðal annars forsenda þess að Ábyrgðasjóður launa greiði út launakröfu vegna óunnins uppsagnarfrests hjá gjaldþrota fyrirtæki.

Ef einhverjar frekari spurningar vakna hvetjum við ykkur til að hafa samband við skrifstofu félagsins í síma 535-9300 eða senda tölvupóst á netfangið kjaramal@verktaekni.is

Frétt RUV um Skagann 3X

Mynd: Unsplash/Einar Jónsson.