Viljayfirlýsing VFÍ og fjármálaráðuneytis
Merk tímamót á fjölsóttri ráðstefnu um risaverkefni.
Ráðstefnan „Risaverkefni - Stærðin skipti máli" fór fram á vegum Verkfræðingafélagsins á Hilton Reykjavík Nordica. Í lok ráðstefnunnar var undirrituð viljayfirlýsing félagsins og fjármálaráðuneytis um undirbúning samráðsvettvangs vegna opinberra fjárfestinga. - Og það á að bretta upp ermar, tillögur eiga að liggja fyrir eigi síðar en 15. maí n.k.
Húsfyllir var á ráðstefnunni og margir fylgdust með í streymi.
Viljayfirlýsing VFÍ og fjármálaráðuneytis
Undirbúningur samráðsvettvangs vegna opinberra fjárfestinga
Alþingi samþykkti vorið 2018 þingsályktun er varðar mikilvægi þess að tryggja gæði, hagkvæmni og skilvirkni opinberra fjárfestinga, allt frá hugmyndastigi til framkvæmda og út ætlaðan líftíma þeirra.
Frá því að þingsályktunin var samþykkt hefur komið æ betur í ljós hversu mikilvægt það er að efla samstarf stjórnvalda, atvinnulífs og fræðasamfélags eins og ályktun Alþingis mælti fyrir um að yrði gert. Fjármála- og efnahagsráðuneytið og Verkfræðingafélag Íslands hafa þess vegna ákveðið að hefja undirbúning að slíkum samráðsvettvangi. Markmiðið er að efla verkefnastjórnsýslu (e. project governance) og stjórn framkvæmda þannig að opinberir fjármunir vegna fjárfestingarverkefna á vegum ríkisins nýtist sem best í þágu samfélagsins.
Á grundvelli yfirlýsingar þessarar munu aðilar vinna sameiginlega að mótun umgjarðar um slíkan samráðsvettvang sem mun efla þekkingu á þessu sviði, draga fram bestu aðferðir samanborið við það sem þekkist hjá nágrannalöndum og styðja við bætta gæða- og kostnaðarstýringu stærri fjárfestingarverkefna hér á landi.
Aðilar yfirlýsingarinnar tilefna einn fulltrúa hvor, sem fá það sameiginlega verkefni að setja fram tillögur um nánari útfærslu á hlutverki og starfsemi samráðsvettvangs vegna opinberra fjárfestinga í samræmi við viljayfirlýsingu þessa. Tillögur skulu liggja fyrir eigi síðar en 15. maí 2025.
Reykjavík, 20. febrúar 2025
Undirritað:
Daði Már Kristófersson, fjármálaráðherra.
Svana Helen Björnsdóttir, formaður Verkfræðingafélags Íslands.